Mikill vöxtur í íþróttastarfi Reykjanesbæjar
Íþróttabandalag Reykjanesbæjar 25 ára
Guðbergur Reynisson var endurkjörinn formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar (ÍRB) á ársþingi þess þegar það var haldið í byrjun þessa mánaðar. ÍRB var stofnað árið 1996 og er því 25 ára um þessar mundir. Guðbergur hefur nú sitt annað tímabil sem formaður en hið fyrra varð tvöfalt lengra en til stóð þar sem -Covid kom í veg fyrir að hægt yrði að halda ársþing á síðasta ári.
Fjölmargt hefur afrekast á þeim stutta tíma sem Guðbergur hefur leitt stjórn ÍRB þrátt fyrir það ástand sem hefur gengið yfir samfélagið. Á þessu þingi voru t.a.m. fjögur ný íþróttafélög samþykkt inn í ÍRB; RB United, sem er knattspyrnufélag í 4. deild karla, Júdófélag Reykjanesbæjar, Borðtennisfélag Reykjanesbæjar og Frisbígolffélag Reykjanesbæjar sem nú samanstendur af fimmtán aðildarfélögum, að sundráði ÍRB meðtöldu, sem iðka 23 íþróttagreinar.
„Þetta var skemmtilegt þing af mörgum ástæðum,“ segir Guðbergur. „Við náðum ekki að halda þing í fyrra út af Covid, gaman að geta loksins haldið þingið. Íþróttabandalagið varð 25 ára þann 29. maí, stofna 1996. Svo við héldum upp á það með köku.“
Hann segir búið að vera rosalega gott starf í mörgum félögum þrátt fyrir þá erfiðleika sem Covid hefur skapað en ýmislegt hafi þó komið upp á. „Það á meðal þurftum við að fella niður val á íþróttamanni ársins, sem var skelfileg ákvörðun en eitthvað urðum við að gera. Það voru 137 Íslandsmeistarar hjá Reykjanesbæ 2019. Árið 2020 voru þeir 47 ef það segir eitthvað um það.
Við erum að huga að stórsókn núna. Það er t.d. verið að vinna að stofnun frjálsíþróttafélags, það eru komnir aðilar sem eru að vinna í því og svo er Frjálsíþróttasambandið tilbúið að aðstoða. Það er eiginlega stórfurðulegt að í tuttugu þúsund manna samfélagi skuli ekki vera svona félag og ég held að það sé grundvöllur fyrir því.
Það er þannig að í Reykjanesbæ eiga krakkar að geta farið í allar tegundir íþrótta, þetta er forvörn og ef einhver íþrótt gengur ekki þá verðum við alla vega að láta reyna á það.
Þá stendur til að endurvekja siglingafélagið sem hefur verið hálfgert olnbogabarn því bátarnir hafa verið á hrakhólum og það hefur vantað aðstöðu fyrir þá. Við erum að reyna að sannfæra bæinn um aðstöðu sem við höfum í huga við smábátahöfnina, það er rosalega spennandi.“
Bærinn þarf að leggja meira í íþróttastarfið
Guðbergur bendir á að það þurfi oftar en ekki að horfa á aðstöðumál íþróttafélaga sem tímabundnar lausnir. Þróunin á samfélaginu tekur svo örum breytingum og hann tekur sem dæmi að félög sem fá aðstöðu í útjaðri bæjarfélaga eru áður en maður veit af komin inn í miðjan kjarna þess. „Ef við byggjum frjálsíþróttavöll einhvers staðar út í móa þá er hann kominn inn í byggð áður en við vitum af. Það getur ekki verið flókið að byggja frjálsíþróttavöll og ég held að við ættum að kýla á það. Við erum með fullt af fólki hér í bænum sem finnur sig ekki í þeim íþróttum sem eru í boði – en gætu verið fínn spjótkastari eða langhlaupari, við vitum bara ekkert um það.“
Guðbergur segir að sér finnist það klárt mál að Reykjanesbær þurfi að leggja meiri fjármuni í að byggja upp íþróttaaðstöðu í bænum.
„Tökum sem dæmi að við stofnuðum nýtt fótboltafélag sem er að standa sig frábærlega í fjórðu deildinni. Ég var að fylgjast með leik hjá þeim um daginn og það voru átta varamenn á bekknum, það er vandamál hjá þjálfaranum að velja í liðið því svo margir vilja vera með. Sýnir þetta okkur ekki að það er þörf á þessu?“
Fjölgun í íþróttahreyfingunni
– Hvernig hefur íþróttafélögunum gengið að halda í sína iðkendur í gegnum þennan veirufaraldur?
„Samkvæmt skýrslum frá 2019 og svo 2021 sem við tökum úr Felix [skráningarkerfi íþróttafélaganna] þá hefur fjölgað um 3.000 í íþróttahreyfingunni frá 2019 – bara hérna í Reykjanesbæ. Þannig að ég myndi segja að það sé heldur betur fjölgun. Kannski er það af því að fólk er meira heima, vonandi helst þetta bara og það verður jafnvel frekari fjölgun. Vonandi verður það lúxusvandamál komið upp á gamlársdag, þegar kemur að því að velja íþróttafólk Reykjanesbæjar, að alltof margir skari fram úr.
Ég vil samt taka skýrt fram að þetta snýst ekki um að skara fram úr, þetta snýst um að taka þátt í íþróttastarfinu og forvörnin er númer eitt, tvö og þrjú. Það er ennþá stór hluti hér í bænum sem er ekki að taka þátt í þessu starfi. Það eru t.d. innflytjendurnir sem eru ekki að falla inn í þá hópa sem eru fyrir. Ég held að leiðin fyrir þá sé að byrja í einstaklingsíþróttum, þá eru þeir komnir inn í þetta umhverfi, og þaðan liggur leiðin í hópaíþróttirnar. Ég held að það muni hjálpa að fjölga valkostunum.
Fólk hefur sagt að það sé búið að reyna hitt og þetta en það hafi ekki gengið. Á maður þá bara að hætta að reyna? Ég held ekki.“